Í 2. tölublaði 19. árgangs (2006) tímaritsins Uppeldis, sem nýkomið er út er grein eftir Gísla Gíslason og Rúnar Gíslason í Félagi ábyrgra feðra, sem ber heitið “Föðurást, vannýtt auðlind” Greinin er hér að neðan

Föðurást ! Vannýtt auðlind !

Um aldir hefur konan gætt bús og barna og haldið manni sínum heimili. Maðurinn hefur aftur á móti verið fyrirvinna heimilisins. Þetta hafa verið hin sígildu hlutverk kynjanna.

Á seinni hluta síðustu aldar sóttu konur út á vinnumarkaðinn og flest börn fóru snemma inná á dagheimili. Leikskóli tók við af dagheimilum og er í dag viðurkenndur sem fyrsta skólastig barnanna. Þessi þróun hefur verið nefnt vinnuvæðing mæðranna og stofnanavæðing uppeldisins. Nú er talað um að þriðji þáttur í þessari þróun sé heimilisvæðing feðranna. Í dag eru oftast báðir foreldrar útivinnandi og báðir foreldrar með jafnari ábyrgð á heimilishaldinu en áður var. Í þessari þróun er samfélagið að fóta sig í dag.

Nútíma feður, fæðing barns og tilfinningar feðra.
Langflestir feður eru viðstaddir fæðingu barna sinna. Eðli málsins samkvæmt sjá þeir barnið augnabliki á undan móðurinni. Oftar en ekki klippa þeir á naflastrenginn og baða barnið.

Erlendar rannsóknir sýna að það er enginn mælanlegur munur á tilfinningum, né viðbrögðum feðra og mæðra við nýfæddu barna. Báðir foreldrar eru í gleðivímu, hjartsláttur hjá báðum foreldrum eykst við grát ungabarns, sem og blóðþrýstingur og leiðni í húð breytist svipað hjá báðum foreldrum. Þessar rannsóknir hafa verið staðfestar hjá tveimur aðskildum rannsóknateymum (1) Feður sýna sömu tilfinningaviðbrögð við hegðun ungbarna eins og mæður. Feður hafa sömu hæfileika og mæður til að fæða börn og klæða. Þeir bregðast eins við hvenær á að hætta að gefa barninu að drekka eða borða. Almennt sýna rannsóknir að hér er kynbunndinn munur hverfandi (2) Feður og mæður gefa börnum sömu ástúð og væntumþykju. Rannsóknir sýna að munur þar á er vart mælanlegur (3)

Yfir 100 rannsóknir hafa rannsakað hvernig 1-2 ára börn tengjast mæðrum sínum og feðrum. Þessar rannsóknir sýna að nærvera föður er barni oftast jafn mikilvæg og nærvera móður. Þetta hefur komið á óvart þar sem oft eru samvistir feðra við ungbörn sín minni en samvistir mæðra. Vísindamenn telja gæði samvistanna skipta miklu máli. Börn tengjast sterkum böndum feðrum sem veita börnum sínum gleði, leika við þau og sýna þeim skilning og væntumþykju, jafnvel þó samverustundir sé skammar. Börn finna hvar er hlýja og þau tengjast þeim sem það veita sterkum böndum.(4)

Í Bretlandi telja um 77% af mæðrum að barnsfeður þeirra séu jafn hæfir uppalendur og 87% feðra telja sig jafn hæfa og mæðurnar til að hugsa um börnin. Almennt virðast því bæði kynin treysta feðrum mjög vel til að annast börnin (5)

Fæðingarorlof og umönnun ungbarna.
Ég hygg að í ekki nokkru öðru landi eru réttindi kynjanna nálægt því að vera jöfn og hér þegar um er að ræða fæðingarorlof. Íslenskir feður hafa tekið þessum réttindum fagnandi og langflestir nýta þann 3ja mánaða rétt sem þeir eiga. Þetta styrkir tengsl feðra við börn sín. Nágrannalönd horfa mjög til Íslands og þá reynslu sem skapast af þessum lögum.

Almennt hafa feður mun styttra fæðingarorlof en mæður. Í Bretlandi vill um helmingur mæðra að feður séu virkari í uppeldinu og yfir 70% af feðrum vilja gjarnan hafa möguleika til að taka meira þátt í uppeldinu. Um og yfir 80% af foreldrum í Bretlandi eru hlynnt því að feður fái aukinn rétt til fæðingarorlofs (5)

Breskir feður annast um einn þriðja af umönnun ungbarna og er það áttföld aukning á 30 árum.. Árið 1993 önnuðust sænskir feður um 40 % af umönnun ungbarna. Í dag er það 45%. (6). Greinarhöfundum er ekki kunnug um sambærilegar tölur fyrir Ísland.

Um 23% af breskum feðrum eyða 28 klukkustundum eða meiri tíma með börnum sínum. Sambærilegar tölur eru 16 % feðra í Þýskalandi, 10 % feðra í Frakklandi, 4% feðra í Grikklandi og 41% feðra í Danmörku eyða 28% klst eða meiri tíma með börnum sínum (7)

Almennt benda rannsóknir til að aukin nærvera feðra sé góð fyrir börn. Hlutur feðra í uppeldi barna hefur verið að aukast og almennt er vilji í hinum vestræna heimi til að hlutur feðra í uppeldi barna haldi áfram að aukast, enda vaxandi skilningur á því að það séu bestu hagsmunir barnanna.

Skilnaður foreldra.
Skilnaður er skipbrot á lífsins leið og getur haft miklar afleiðingar í för með sér bæði fyrir foreldra og börn. Varlega er áætlað að skilnaðarbörn séu í 10 sinnum meiri áhættu en önnur börn til að lenda villu vegar í lífinu. Það er oft notað sem þumalfingursregla að um 20% af skilnaðarbörnum lendi afvega í lífinu á meðan það sé um 2% af börnum sem alast upp hjá báðum foreldrum.

Í bókinni “Skilmissä börn berättar” eða “Skilnaðarbörn segja frá” frá árinu 2002 fjalla sænsku Öberg hjónin, Bente og Gunnar, um rannsókn þar sem þau töluðu á árunum 1978-1982 við 60 pör sem voru að skilja og börn þeirra. Um 20 árum eftir skilnað var aftur rætt við 50 “börn”, 25 konur og 25 karla. Við skilnaðinn lögðu foreldrarnir upp með að börnin myndu búa jafnt hjá báðum foreldrum. Öberg hjónin gerðu ráð fyrir að um eitt af hverjum fimm börnum myndu lenda afvega í lífinu, eins og algengt er með skilnaðarbörn og vonuðust til að hlutfall ógæfu barna yrði ekki hærra við þetta sambúðarform. Niðurstaðan varð sláandi. Einungis eitt af þeim 50 börnum, sem haft var samband við, hafði lent illa afvega í lífinu. Fimm aðrir höfðu tímabundið lent í minniháttar vandamálum, en voru öll fjölskyldufólk í góðri stöðu þegar Öberg hjónin hittu þau aftur. Ályktun Öberg hjónanna var skýr eftir þessa rannsókn; Látum búsetu barna vera sem jafnasta hjá báðum foreldrum eftir skilnað, þegar það er hægt. Öberg hjónin benda á nokkur skilyrði sem þurfi að uppfylla til að slíkt fyrirkomulag gangi. Það er m.a. að foreldrar búi nálægt hvort öðru, báðir foreldrar og barn vilji þetta fyrirkomulag og foreldrar geti haft samskipti sín á milli. Öberg hjónin bentu einnig á að í slíku fyrirkomulagi, hafi allir áfram hlutverk, hvorugt foreldrið er tapari í skilnaðinum og börnin njóta áfram ástúðar beggja foreldra. Langflest af þeim 50 einstaklingum, sem Öberg töluðu við og bjuggu til skiptis hjá báðum foreldrum eftir skilnað þeirra, fannst þetta gott fyrirkomulag og myndu einnig vilja slíkt fyrirkomulag fyrir sín börn ef þau lentu í skilnaði við sinn maka. (8) Jöfn búseta barna þýðir auknar samverustundir barna með feðrum samanborið við hefðbundið helgarpabba kerfi. Rannsóknir Öberg hjóna styðja því að auknar samvistir við feður eru börnunum fyrir bestu

Á Íslandi eru um 4.000 börn í hverjum árgangi. Af þeim eru um 1.100 börn sem greitt er meðlag með, þar sem kynforeldrarnir búa ekki saman. Ef 1 af hverjum 5 skilnaðarbörnum á Íslandi lenda í vandræðum þá eru það 220 af 1.100 börnum í árgangi . Ef það eru einungis 1 af hverjum 50 eins og reyndin var samkvæmt rannsóknum Öberg hjónanna, við jafna búsetu, þá fækkar þessum ógæfu einstaklingum úr 220 í 22 börn í hverjum árgangi. Þetta þýddi að 200 börn á Íslandi í hverjum árgangi myndu vegna betur!

Í dag ákveða um 20% af foreldrum í Svíþjóð, að láta búsetu barnanna vera jafna hjá báðum foreldrum eftir skilnað. Þetta er tíföldun á 10 árum. Sambærileg tala í Noregi er 8% en á Íslandi er ekki hægt að hafa barn skráð til heimilis á tveimur stöðum.

Á Íslandi hafa yfir 90% af skilnaðarbörnum lögheimili hjá móður. Um 70% af foreldrum sem skilja ákveða að fara áfram með sameiginlega forsjá barna sinna. Sameiginleg forsjá á Íslandi hefur samt takmarkaða lagalega þýðingu, þar sem barn verður að eiga eitt lögheimili og velflestar lögfylgjur fylgja lögheimili, en ekki forsjá. Íslendingar þurfa að fylgja frændum vorum á norðurlöndum eftir og viðurkenna þá staðreynd að barn á oftheima á tveimur stöðum eftir skilnað.

Réttindabarátta feðra.
Á sjöunda áratugnum, þegar skilnuðum fjölgaði urðu til hreyfingar feðra, sem börðust fyrir þeim rétti að fá að sjá börn sín. Í öllum vestrænum löndum eru til hreyfingar feðra og forsjárlausra foreldra, sem eru að berjast fyrir þeim mannréttindum að börn njóti áfram samvista við báða foreldra eftir skilnað. Sú barátta hefur ekki veið beinn og greiður vegur. Á Íslandi var Félag Ábyrgra Feðra stofnað árið 1997, en barátta feðra fyrir samvistum við börn sín er mun eldri.

Lög nr 60/1972 skilgreina fyrst rétt fráskildra feðra til að umgangast skilgetin börn sín eftir skilnað. Fyrir þann tíma voru allar hugsanlegar samvistir háðar vilja móður. Feður, sem eignuðust börn utan hjónabands eða í óvígðri sambúð, höfðu áfram engann lagalegan rétt til að umgangast börn sín. Hugsanlegar samvistir við börnin voru alfarið undir vilja móðurinnar komnar. Á þessum tíma bar feðrum eftir sem áður að greiða barnsmóðurinni meðlag, óháð hvort nokkur umgengni átti sér stað. Hér var því móðurrétturinn sterkur en réttur barnsins fyrir borð borinn.

Árið 1979 staðfesti hæstiréttur að lagaheimild skorti til að veita föður sem hafði verið í óvígðri sambúð, sjálfstæðan rétt til umgengnis við barn sitt eftir skilnað gegn vilja móður. Löggjafinn brást við og í barnalögum frá árinu 1981 var lögfest almennt ákvæði um umgengnisrétt forsjárlaus foreldris við börn sín.

Árið 1998, úrskurðaði hæstiréttur (208/1997) að ríkið yrði að veita karlkyns starfsmanni sínum sambærilegan rétt og kvenkyns starfsmönnum til fæðingarorlofs. Meðal annars í framhaldi af þessum hæstarréttardómi urðu til hin nýju fæðingarorlofslög. Það eru fyrstu lög á Íslandi sem tryggja sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Það má færa rök fyrir því að þessi lög séu einn mikilvægasti lagabálkur til jafnréttis fyrir kynin og ekki síður fyrir jafnrétti kvenna á vinnumarkaði.

Hæstiréttur (419/2000) komst að þeirri niðurstöðu að það bryti í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu að einungis móðir og barn mættu fara í faðernismál en ekki faðir. Í þessu máli ályktar hæstiréttur að réttur barns til að þekkja foreldra sína sé ríkari en hagsmunir einstæðrar mæðra til að ráða einhliða hvort þær feðri börnin sín. Af þessum dómi leiddi að í nýjum barnalögum er fyrst opnaður möguleiki fyrir feður að höfða faðernismál. Það er með ólíkindum að fyrst á þessari öld fengu feður þann rétt að höfða faðernismál, sem þó enn þann dag í dag er takmarkaður og bundinn við að móðir hafi ekki feðrað barn.

Mikilvægi feðra.
Mikilvægi feðra í uppeldi barna er óumdeilt. Oftast eru það deilur foreldra sem takmarka aðgang föður af barni, en ekki vanhæfi föður. Fyrir Alþingi Íslendinga er nú til umfjöllunar breytingar á barnalögum, sem ganga út á að við skilnað foreldra fari foreldrar sjálfkrafa áfram með forsjá barna sinna. Með þessu er löggjafinn að senda þau skýru skilaboð út í samfélagið að það er sameiginlegt verkefni foreldra að ala upp barn einnig eftir skilnað. Þetta er viðurkenning fyrir feður og baráttu þeirra. Næsta skref hjá löggjafanum hlýtur að vera að skilgreyna betur hvað felst í forsjár hugtakinu.

Barn á alltaf föður og móður. Bæði eiga ávallt að vera virk í uppeldi barns, óháð hjúskaparstöðu þeirra. Rannsóknir sýna að aukin þáttaka feðra í uppeldi barnanna styrkir börnin og þau öðlast sterkari sjálfsmynd fyrir fullorðinsárin. Í Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna segir í 18. gr:
Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar, eða lögráðamenn, ef við á, bera aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.

Fyrir þessum rétti berst Félag ábyrgra feðra. Það eru bestu hagsmunir barnanna okkar, en ennþá er þessi auðlind, föðurástin aðeins nýtt að hluta.

Heimildir.
(1)Reviewed by M.E. Lamb (Ed) (1997) The Role of the Father in Child Development (3rd Edition) New York: Wiley

(2) Parke, R.D. (1981) Fathering. London: Collins; Cambridge, MA: Harvard University Press. Also reviewed in What Good Are Dads? Charlie Lewis, NFPI et al. 2001

(3) Schaffer, H. R. (1996) Social Development. Oxford. Blackwell, reviewed in What Good Are Dads? Charlie Lewis, NFPI et al. 2001

(4)What Good Are Dads? Charlie Lewis, NFPI et al. 2001

(5) EOC Dads and their babies: leave arrangements in the first year, 2005

(6)Fatherworld 2005 vol.3 nr.2 p.7

(7) Who Cares? Fathers and the Time They Spend Looking After Children Alison J. Smith, Department of Sociology, University of Oxford, Sociology Working Papers, 2005

(8) Öberg, Gunnar og Bente, “Skilmissä börn berättar” 2002

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0