VELFERÐ sérhvers einstaklings er forsenda þess að samfélaginu vegni vel. Því er hún grundvallar verkefni okkar stjórnmálamanna. Velferð einstaklinga hefst ekki við kosningaaldur þeirra!
Fyrstu árin í lífi hvers einstaklings eru gríðarlega mikilvæg. Þroski barna byggist m.a. á þekkingu uppalenda á uppeldishlutverki sínu. Rannsóknir hafa sýnt að það er hægt að auka lífshamingju barna og foreldra og efla jákvæða hegðun og virkni með kennslu í uppeldi.

Þegar uppeldi barna okkar er skipt á margra hendur verður verkefnið flóknara því hætta er á að skilaboð okkar verði misvísandi og úr verði sjálfeldi barna. Það skiptir miklu máli í nútímasamfélagi að vinna með þessar staðreyndir.

Í Reykjanesbæ höfum við lagt áherslu á að sýna sem líkasta framkomu í uppeldishlutverki okkar. Við viljum rækta góðar og viðurkenndar, almennar uppeldisreglur með börnum okkar. Skilaboðin frá okkur foreldrum, frá dagforeldrum eða starfsfólki leikskóla þurfa að vera af sama toga, samskonar umbun fyrir vel unnið verk og sömu uppeldisaðferðum beitt hvort sem er að morgni, degi sem kvöldi.

Lífshamingja alla leið!
Þetta er undirstaða þeirrar miklu vinnu sem unnin hefur verið í Reykjanesbæ á undanförnum árum og hefur fengið jákvætt viðmót langt út fyrir bæjarmörkin. Með samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er okkur nú að takast að vinna þetta verkefni með foreldrum, ef þeir óska, allt frá því þeir koma fyrst inn til HSS vegna væntanlegra barneigna. Ókeypis uppeldiskennsla fyrir alla foreldra, samskonar þjálfun starfsfólks leikskóla og dagforeldra skilar okkur að settu marki. Þessu fylgir svo frekari stuðningur við þá foreldra sem þess þurfa með. Á annað þúsund foreldra og fagfólks hafa þegar tekið þátt í slíkum námskeiðum. Dagforeldrum býðst nú samskonar fræðsla þeim að kostnaðarlausu. Markmiðið er að styrkja jákvæða hegðun, auka vellíðan og vinna gegn þunglyndi og kvíða á æskuárum. Verkefnið er unnið á þann hátt að hægt er að mæla árangur. Til þess njótum við leiðsagnar færustu fræðinga við háskólastofnanir, auk okkar hæfa starfsfólks. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir yfirfærslugildi verkefna af þessum toga. Með tilkomu þessa verkefnis hefur tilvísunum til sérfræðideildar Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar vegna hegðunarörðugleika fækkað.
Sameiginlegur metnaður í þágu æskufólks

Lestrarmenning í Reykjanesbæ er annað verkefni sem hefur notið mikillar athygli og skilað okkur góðum árangri. Verkefnið hlaut viðurkenningu Íslenskrar málnefndar á Degi íslenskrar tungu á síðasta ári. Forsaga þess er að niðurstöður rannsókna frá árinu 2002 sýndu að þörf var á að vinna markvissar með málþroska og hljóðkerfisvitund á meðal foskólabarna í bænum. Gott mál og námsárangur byggja mjög á lestrarhæfni. Svarið var m.a. fólgið í verkefni sem lagði áherslu á íslenska tungu, lestrarkennslu og yndislestur allt frá fyrstu mánuðum með foreldrum, öfum og ömmum, inn í leikskóla, í grunnskóla og inn á vinnustaði. Hver leikskóli hefur sett verkefnið í öndvegi og lagt allan sinn metnað í að vinna verkið af kostgæfni s.l. þrjú ár. Árangurinn er þegar að koma í ljós, fyrstu bekkir í grunnskóla skila betri árangri í lestri.

Framundan er að styrkja enn frekar þá samverkandi þætti sem við teljum svo mikilvæga í nútímauppeldi barna. Við búum við þær sérstöku og ánægjulegu aðstæður í dag að við verðum öll að koma að uppeldi þeirra. Það má því með sanni segja að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn!

Árni Sigfússon
Höfundur er formaður fræðsluráðs og bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
mbl.is Sunnudaginn 16. apríl, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0