Sveinn Hjörtur Guðfinnsson fjallar um tæknifrjóvganir og ættleiðingu: “Það er kominn tími til að ræða þessi mál af ábyrgð og einnig það að yfirvöld opni fyrir möguleika á samvinnu við fleiri þjóðir um að ættleiða börn.”

Ég get ekki annað en sagt að forstjóri Barnaverndarstofu hafi komið mér á óvart með ummælum sínum í fréttum Stöðvar tvö miðvikudaginn 21. sept. sl. Þar sagði hann m.a. að skortur sé á foreldrum sem vilji taka börn í varanlegt fóstur með ættleiðingu í huga og jafnframt bætir hann við að engu sé þó hægt að lofa um ættleiðingu. Í sömu frétt er einnig sagt að íslensk börn vanti varanlegt fóstur – en á sama tíma velja barnlaus pör frekar tæknifrjóvgun eða að ættleiða börn að utan.

Mér er spurn! Um hvað snýst þessi framkoma Barnaverndarstofu? Er það til að gera lítið úr pörum sem fara í glasafrjóvgun og úr því sem þau ganga í gegnum? Eða er þetta bara sagt til þess að kenna öðrum um vanda Barnaverndarstofu? Hvers vegna er þetta ekki rætt við Landspítalann? Þar er stórt teymi starfsfólks sem ræðir við pör sem ekki geta eignast börn. Þess vegna ítreka ég það að þetta er sagt í algjöru ábyrgðarleysi og hugsanalaust.

Fyrir nokkrum árum stóðum við hjónin frammi fyrir þeim möguleika að þurfa ef til vill að ættleiða barn. Við vorum þegar búin að ganga í gegnum tæknifrjóvgun sem bar ekki árangur. Við gerðum okkur grein fyrir því að það kynni að enda í þeirri staðreynd að leita eftir fósturbarni. Ég kannaði þennan möguleika á sínum tíma og alstaðar var sem þessi leið væri stórt og mikið leyndarmál. Við hjónin hugsuðum einnig að taka barn í fóstur t.d. í takmarkaðan tíma, en vildum eignast barn sem væri inni á heimili okkar og við tækjum þátt í að ala upp og koma til manns.

Einmitt um það leyti sem við vorum að hugsa um ættleiðingar, sá ég bandaríska sjónvarpsþáttinn 60 mínútur þar sem tekið var viðtöl við munaðarlaus börn í Bandaríkjunum. Í hverri viku komu börnin saman á leikvelli þar sem væntanlegir foreldrar máttu “velja” sér barn. Á ómanneskjulegan hátt var börnunum stillt upp sem dilkum og máttu pör velja það besta barn sem því þótti. Ef pör voru ósátt með barnið mátti skila því aftur. Ótrúleg, hryllileg og köld staðreynd sem stofnanir sögðust þurfa að gera til að koma börnum í fóstur því sífellt bættist inn á heimilin.

Það situr í mér viðtal við eina blökkustúlku sem sat í fínum kjól með tíkarspena og brosti út að eyrum við hverjum þeim sem skoðaði hana. Litla stúlkan sagði að sér fyndist þetta erfitt, en með tímanum lærði hún að ,,leika” eins vel og hún gat og í sem lengstan tíma svo henni verði ekki skilað. Þessi börn voru snillingar. Kurteis, einlæg og með reynslu af lífinu sem við sum hver þekkjum ekki og munum vonandi aldrei kynnast. Þau voru mörg börnin sem voru bráðgáfuð og úrræðagóð að takast á við það sem líf þeirra bauð upp á hverju sinni. Ég sat orðlaus að svona væri fyrir börnum komið. Mig langaði helst til að fara strax til Bandaríkjanna og faðma þessa litlu stúlku og bjóða henni heim til Íslands. Mig langaði að bjóða henni heimili okkar hjóna og allt það sem við höfðum að bjóða. Kærleik, væntumþykju og ást. En ég gat ekkert gert! Ég trúði þessu varla en þetta var staðreynd. Börn í Bandaríkjunum og um allan heim bíða eftir foreldrum og sum hver kynnast aldrei þeirri upplifun að eignast manneskjur sem elska þau og hægt er að kalla “mömmu og pabba”.

Mér finnst leitt að heyra ummæli Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, ef það eru hans orð að pör velji ,,frekar” að fara í glasafrjóvgun. Glasafrjóvgun er strembin og oft sorgleg. Það þarf að bjóða þennan möguleika til íslenskra foreldra, en ekki koma með svona rembingshátt í sjónvarpið. En þar sem Barnaverndarstofa virðist vera með þessi mál á hreinu, þá er auðsjáanlega búið að opna þann möguleika fyrir væntanlega foreldra að ættleiða barn.

Það þarf að hætta með þennan stofnanabrag líkt og Barnaverndarstofa virðist vera að sýna, en það kemur mér mjög á óvart að Bragi fari þessa leið að leysa þennan vanda því ég hef alltaf virt Braga Guðbrandsson fyrir rólega og þægilega framkomu og mér hefur fundist hann vera vinsamlegur og framsækinn. Ég held að Barnaverndarstofa ætti frekar að vinna að því að taka betur á þeim vanda að hér á Íslandi eru börn sem lítinn kærleika fá og týnast á stofnanabrölti og lagaflækju og það eitt er ömurlegt til að vita. Ég er nokkuð viss að félagsmálaráðherra gefi sér að þessu máli, enda margsannað með áhuga sínum á barnamálum og barnavernd.

Það er kominn tími til að ræða þessi mál af ábyrgð og einnig það að yfirvöld opni fyrir möguleika á samvinnu við fleiri þjóðir um að ættleiða börn. En fyrst og fremst þarf að huga að þeim börnum hér heima á Íslandi og gera það mögulegt að fólk geti ættleitt börnin formlega. Vonandi fá foreldrar tækifæri, hvort sem er að fá aðstoð frá læknavísindum, með ættleiðingum barna hér á Íslandi eða annars staðar í heiminum að upplifa það að verða foreldri og það að börnin kynnist fólki sem elskar þau af öllu hjarta og gefa ást sína og kærleik. Er hyggilegra að Barnaverndarstofa tali með gát um þessi mál því það eru langir biðlistar eftir því að fara í tæknifrjóvgun. Við leggjum mikið á okkur til að verða foreldrar því það gerist ekki alltaf af sjálfu sér eða óvart.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
Höfundur á barn sem var getið með aðstoð frá glasafrjóvgunardeild.
mbl.is – Fimmtudaginn 29. september, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0