Stefna félagsins

//Stefna félagsins
Stefna félagsins 2016-03-04T14:10:29+00:00

Stefnumótun.

Eins kemur víða fram í fræðunum t.d. Grant (2002)  þá er ákveðið grundvallaratriði að mótun stefnu og framkvæmd stefnu eru tveir þættir – kannski má segja að það séu tvær hliðar á sama pening þar sem annar þátturinn hefur ekki tilgang án hins. Mótun stefnunnar er vissulega frumatriði og kemur á undan. Snjólfur Ólafsson (2005) segir að greina megi stefnumiðaða stjórnun niður í þrjá þætti, greiningarvinnu, val á kostum og svo að lokum framkvæmd stefnu. Segja má að Félag ábyrgra feðra hafi hafi á síðustu vikum og mánuðum unnið mikið í greinarvinnu á sjálfu félaginu og vali á kostum varðandi þá málefnavinnu sem ætlað er ytri hagsmunahóp. Við val á kostum þarf að fara yfir þau málefni sem félagið hefur beitt sér fyrir og haft skoðanir á. Þessum málum hefur þurft að forgagnsraða og velja hvaða málefni setja eigi á oddinn.

Við stefnumótunarvinnu á félaginu var stuðst við hluta af víddunum hér að framan en eins og kemur fram hjá Snjólfi Ólafssyni (2005) eru orðin tilvist, gildi og framtíðarsýn oft notuð við stefnumótandi áætlanagerð sem spannar bæði val á kostum og framkvæmd stefnu. Runólfur Smári Steinþórsson (2003) bætir við orðunum grundvöllur og  meginstefna. Var það niðurstaða stjórnarinnar að nýta þessi fimm hugtök til að ná utan um grunnhugmyndir félagsins. Vissulega verður mikil skörun milli þessara flokka þegar verið er að flysja þann málflutning sem félagið hefur viðhaft, skrifað um og skeggrætt árum saman. Ljóst má vera mikil leynd þekking er innra með félaginu úr öllum þeim umræðuhópum sem unnið hafa innan félagsins og því spurning hvort hægt sé að gera hana öllum ljósa og skapa þannig þekkingarverðmæti sem byggja má á til framtíðar.

Á stjórnarfundi Féalgs ábyrgra feðra þann 2 apríl síðastliðinn var farið yfir SVÓT greiningu og þá stefnumótunarvinnu sem unnin hafði verið. Niðurstaða stjórnarinnar var að samþykkja eftirfarandi tillögur varðandi hugtökin fimm sem einskonar grunn fyrir stefnumótun félagsins. Undirritaður á verulegan þátt í uppsetningu þessara skilgreininga enda byggjast þau á þeim fræðum sem lesin hafa verið í vetur.  Þessi stefnumótun styðst við lög félagsins og er hugmyndin er sú að þessi grunnstefna styðji við ákvarðanir varðandi val á verkefnum sem félagið muni beita sér fyrir.  Stefnukortið mun svo styðjast að hluta við þessa stefnumótun ásamt þeim þáttum sem fram komu í greiningunni hér að framan.

Grundvöllur

Félagið telur að stóraukin menntun og atvinnuþátttaka kvenna síðustu áratugi hafi gjörbreytt stöðu feðra og hefur þjóðfélagið stutt við þá þróun, til dæmis með lögum um feðraorlof. Við skilnað foreldra hefur hefur hins vegar lítið  breyst og telur félagið að feður standi frammi fyrir kynbundnu ójafnrétti þegar kemur að umönnun og uppeldi barna sinna eftir að heimilið brotnar upp. Félagið telur að börnin líði fyrir þær miklu breytingar sem verða í lífi þeirra þegar annað foreldrið fær öll völd og allar skyldur en hitt foreldrið einungis framfærsluskyldu.

Framtíðarsýn

Framtíðarsýn félagsins er foreldrajafnrétti þegar kemur að uppeldi barna eftir skilnað. Félagið telur að innihaldsrík sameiginleg forsjá barna eigi að vera meginregla enda tryggir það báðum foreldrum ábyrgð á barninu eins og hún var fyrir skilnað. Sameiginleg umönnun þar sem börnin eiga tvö jafnrétthá heimili að gefnum skilyrðum um staðsetningu heimilanna, efnahagslega getu beggja foreldra til að halda boðleg heimili og að hvorugt foreldrið hafi brotið af sér gegn börnunum, sem dregur þá úr tilkalli þeirra til forsjár eða umgengni. Meðlagsgreiðslur milli heimilanna tækju mið af umönnun og væru engar ef hún er jöfn.

Gildi

Félagið vill að hagsmunir barna séu í fyrirrúmi þegar taka þarf ákvarðanir um forsjá og umgengni þeirra, en ekki hagsmunir foreldra, úreld gildi eða hefðir.  Félagið telur það fæðingarrétt hvers barns að geta umgengist báða foreldra sína og taka þurfi tillit til þessa réttar í hvívetna.  Félagið telur að börnum vegni betur í lífinu ef umgengi eftir skilnað er ríkuleg við báða foreldra.

Hlutverk

Til að löggjafarvald og framkvæmdavald bregðist við þarf félagið að sýna fram á það kynbundna ójafnrétti sem feður geta staðið frammi fyrir. Félagið hefur jafnframt það hlutverk að kynna málefni sín almenningi, kynna þróun sömu mála erlendis og stuðla að breytingum á gildismati þegar kemur að hlutverkum kynjanna.  Ljóst að slíkt tekur langan tíma og þarf félagið að hafa úthald og þol til verksins. Til að félagið geti ræktað hlutverk sitt þarf það að hafa fjárhagslega burði til að geta beitt þeim aðferðum sem duga hverju sinni. Æskilegt væri að félagsmenn verði sem flestir en uppistaða rekstrarfjár komi þó frá stofnunum og fyrirtækjum.  Mannauður félagsins liggur í þeim félagsmönnum sem virkir eru á hverjum tíma og mikilvægt að laða að öfluga einstaklinga til starfa.

Meginstefna

Megininntak stefnu félagsins er að tryggja foreldrajafnrétti í reynd bæði til forsjár og umönnunar, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Stefnukort

Samkvæmt Kapan og Norton (2001) er fyrsta atriðið í lykilþáttunum fimm að hafa forystu í breytingarstjórnun og vitnað til þess að stjórnendur leiði breytingar. Þó svo undirritaður hafi leitt þessa vinnu þá hefur öll stjórnin komið að ofangreindri vinnu. Annað lykilatriðið snýst um að skilgreina stefnuna eða “translate strategy to operational terms. Segja má að sú vinna standi yfir með mótun grunngildanna hér að ofan en færa þurfi hana yfir í myndrænt stefnukort. Undirritaður getur tekið undir með Snjólfi Ólafssyni (2005) að nánast þurfi listræna hæfileika til að setja upp slíkt kort þannig að auðskiljanlegt og nothæft verði. Við meðfylgjandi stefnukort var auðveldast að taka mið af stefnukorti Reykjavíkurborgar og vera einungis með örvar upp milli víddanna en ekki milli einstakra atriða. Stóð valið um að hafa stefnukortið án vídda en hafa örvar eða hafa víddir sem síðan allar leiða upp.  Fjármálin hafa þó sérstöðu.

Markmið og mælikvarðar

Stefnumótunin sem unnin var út frá hugtökunum um grundvöll, framtíðarsýn, gildi, hlutverk og meginstefna eru mjög málefnatengd, eins og kannski mætti segja að málefnaskrá stjórnmálaflokks væri. Stefnukortið er hinsvegar meira um það hvernig innra skipulag eigi að vera til að hafa þau áhrif sem þarf til að koma málefnaskránni á framfæri. Eftirfarandi eru tillögur um nokkur markmið og mælikvarða  sem notast mætti við í skorkort til að ýta undir að stefnan kæmist í framkvæmd.

Vídd Markmið Mælikvarða Niðurstöður Viðmið
Mannauður Reglulegir fundir Fjöldi / mán 1 / mán
Mannauður Sendingar á póstlista Fjöldi / mán 4 / mán
Mannauður Fjölgun í hópi félagsmanna % aukning milli ára 10%
Mannauður Tengsl við erlend feðraféalg Fjöldi félaga / ári 4 félög / ári
Innri Hópur Forgagnsröðun málefna hvers tíma Fjöldi mála í forgangi 3-5 mál
Innri Hópur Fjárhagsl. stuðningur við prófmál Fjöldi mála á ári 1-2 mál
Innri Hópur Skoðanakannanir Fj. Kannana á ári 1 könnun
Innri Hópur Fjárhagsl. Stuðningur við m.nema Fj / ritgerða / ári 1 –2 ritg
Ytri hópur Fjöldi heimsókna á heimasíður Fjöldi per viku 300
Ytri hópur Greinaskrif í blöð Fj. Greina / mán 2 greinar
Ytri hópur Tímaritið “ábyrgir feður” Fj. Per ár 1 útgáfa
Ytri hópur Stór málþing Fj. Per ár 1 málþing
Ytri hópur Tengsl við félagsm. og dómsm.ráð Fj. Tengsla per ráðun. 3
Ytri hópur Tengsl við löggjafarsamkomu Fj. Tengsla per flokk 3-5

Nánari útlistun á markmiðum og mælikvörðum.

 1. Stjórnin forgangsraði markmiðum og taki út 3-4 markmið á hverjum tíma sem fái forgang og alla athygli á hverjum tíma og fækki þannig vígstöðvum.
 2. Settir verði á laggirnar jafnmargir hópar þar sem hver hópur vinnur málefnavinnu fyrir eitt markmið með mánaðarlegri umræðu um stöðu málaflokksins.
 3. Árleg kynning með fulltrúum allra stjórnmálaflokka skal áfram haldin þar sem  kynnt eru valin málefni félagsins fyrir þingmönnum flokkanna.
 4. Stuðla að góðu samstarfi við lykilaðila í dóms- og félagsmálaráðuneytunum  með fundum á 6 mánaða fresti.
 5. Auka samstarf við laga-, félags- og sálfræðideildir háskólanna og hvetja nemendur til að skrifa lokaritgerðir um einstök málefni sem falla að völdum markmiðum á hverjum tíma, 1-2 ritgerðir á ári.
 6. Stuðla og styrkja þá aðila, utan eða innan félagsins, sem eru reiðubúnir til að fara í prófmál í einstökum málum sem tengjast markmiðum félagsins og getur skapað fordæmi. Æskilegt væri að fá fram eitt prófmál árlega.
 7. Halda úti kynningarstarfi í formi árlegrar útgáfu blaðsins Ábyrgir feður og öflugri heimasíðu þar sem póstlistar eru nýttir til að koma upplýsingum á framfæri.
 8. Skipuleggja skrif í fjölmiðlum um ákveðin þau málefni sem félagið leggur áherslu á á hverjum tíma. Æskilegt er að stýra fjölmiðlaumræðu þannig að fjallað er um eitt baráttumál á hverjum tíma og eru 2-3 félagsmenn fengnir til að skrifa um málið, hver á eftir öðrum.
 9. Halda opinn málfund mánaðarlega þar sem þau völdu markmið sem eru til umræðu þá stundina eru rædd og dýpt sköpuð í þröngum málefnum með aðkomu sérfræðinga.
 10. Láta vinna 2-3 kannanir á ári, t.d. nýta til þess háskólanema og kennaranema, sem mæla viðhorf almennings til forsjármála og foreldrajafnréttis. Vísa mætti í niðurstöður slíkra kannana til að renna stoðum undir baráttuna í allri umfjöllun. Meðal þeirra fjölmörgu þátta sem mætti kanna er ímynd fráskilinna feðra, ímynd félagsins, hversu miklum tíma almenningi þykir eðlilegt að forsjárlaust foreldri eyði með börnum sínum í viku hverri, hver aldursskipting og kynjaskipting er á viðhorfi fólks er og hvað skilnaðarbörnum þykir sjálfum eðlilegt.
 11. Fjölga félagsmönnum, og ekki síst konum, um 50% fyrir næstkomandi áramót.
 12. Breyta þarf nafni félagsins þannig að það endurspegli betur stefnu þess um  „foreldrajafnrétti” en það orð kemur fyrir í lögum félagsins og er ákveðið grunnstef í stefnu félagsins. Stefna þarf að kosningu um nýtt nafn á næsta aðalfundi félagsins.